Myrkar tímalínur

Um helgina sótti ég samstöðufund fyrir Palestínu í Háskólabíói. Það var reglulega kærkomið og virkaði á mig sem hvatning til þess að taka saman ýmsar hugsanir sem leitað hafa á mig þessar síðustu vikur. Þessar hugleiðingar eru auðvitað ekki gleðilegar. En það er þó vonandi ljós við enda ganganna.

Tilfinningin undanfarið er eins og fólk hafi í auknum mæli misst áhuga á átökunum og það sé frekar tilbúið að snúa sér að öðru. Það er auðvitað skiljanlegt og líklega eðlilegt að dofna yfir þessum stanslausa hrylling. Það var því gott að hitta fyrir fleira fólk sem ennþá greinir stærri myndina og er tilbúið að gefa málinu gaum. Tilbúið að gefa sér tíma til að standa saman fyrir mannréttindum, gegn kúgun og gegn fullkomnu niðurbroti á öllum þeim samfélagslegu stofnunum sem við höfum hingað til haldið að væru í lagi.

Það breyttist nefnilega svo margt þann 7. október 2023. Breytingarnar halda áfram, dag frá degi. Alltaf í hræðilega átt og stofnanirnar okkar og stjórnmálin okkar kunna ekki að bregðast við því. Viðbragðið er að reyna að endurskapa veruleikann eins og hann var áður, en sú leið er ekki lengur fær. Við reynum samt, og núna leyfum við okkur allskonar sem áður var ekki í boði.

Það gilda engar reglur lengur

Undanfarna mánuði höfum við horft upp á alþjóðalög og sáttmála þverbrotna. Sprengjuárásir á spítala í herlausu landi eru nú orðnar eðlilegar. Raunverulega hversdagslegar. Ég man þegar Al-Ahli spítalinn var sprengdur þann 17. október. Heimurinn andaði djúpt og ákvað að þetta hlytu að vera mistök, eða hryðjuverk. En svo ákváðum við bara að loka augunum. Núna berast daglega myndir sem minna mest á hræðilegustu myndir úr seinni heimsstyrjöldinni og það er okkar nýi, eðlilegi veruleiki. Það gerir eitthvað við mann að horfa upp á fullkomið skeytingarleysi fyrir lögum og reglu, dag eftir dag. Skeytingarleysi fyrir mannúð og mennsku. Það grefur undan tiltrú á samfélagið. Það grefur undan tiltrú á lög og reglu. Það er nýi veruleikinn sem við höfum sæst á. Það er botnlaust hyldýpi sem við getum ekki séð hvar endar. Það er stóra myndin. Og hún nær líka hingað heim til Íslands.

Dystópía raungerist

Eins og það væri svo ekki nógu dapurleg tilhugsun, þá er það dystópían sem hefur raungerst fyrir framan okkur. Á meðan við leikum okkur að því að láta gervigreind skrifa fyrir okkur gamanmál og teikna skrípamyndir, hafa hersveitir Ísraela fundið önnur og skuggalegri not fyrir tæknina. Við skipulag sprengjuherferðanna á Gaza hefur Ísraelsher fundið upp á því að láta gervigreind um að að útfæra árásirnar. Við vitum ekki hvaða forsendur þeir mata vélarnar sínar með, en niðurstaðan er augljóslega út fyrir mannlegt ímyndunarafl. Fyrstu hermennirnir sem fengu að nota hríðskotabyssur, lýstu því yfir að það hefði verið mun auðveldara að salla niður andstæðinga sína, þegar þeir þurftu ekki að horfa í augun á þeim. Það var nóg að úða byssukúlum yfir akurinn og fara svo heim í kaffi. Á sama hátt hlýtur það að einfalda málið verulega að útvista hryllingnum til tölvu. En hver ber þá ábyrgðina? Ísraelski herinn prófar nú ný og sjálfvirk vopn daglega á óvopnuðum Palestínumönnum. Þessi vopn eru oft með gervigreindareiginleika eða geta greint mynstur á snjallan hátt þannig að aðkoma manneskju í beitingu þeirra verður takmörkuð. Fyrir mér er þetta einhver bíómyndahryllingur á skala sem ég get ekki skilið. En þetta virðist almennt ekki vekja neinn ugg meðal fólks. Ég veit eiginlega ekki hvað ég hræðist meira. Vopnin eða tómlætið. 

Ég tók þátt í þjóðarmorði og það eina sem ég fékk var þessi bolur

Viðbrögðin við þessu öllu hér á Íslandi hafa verið sérkennileg en að einhverju leyti hafa þau líka verið fyrirsjáanleg. Íslendingar hafa aldrei getað rekið eigin sjálfstæðu utanríkisstefnu. Auðvitað tökum við bara við pöntunum frá Bandaríkjunum, út yfir öll velsæmismörk. Það var alltaf fyrirsjáanlegt. Ég bara átti ekki von á því að við værum jafnvel til í að taka virkan þátt í þjóðarmorði.

Börnin sem brutu innviðina

Það sem er sérkennilegt við viðbrögðin okkar er hvernig við ákváðum sameiginlega að nýta tækifærið til að “opna umræðuna um innflytjendamál eða hælisleitendamál” (það er ekki gerður mikill greinarmunur á þessu í almennri umræðu). Núna, einmitt þegar öll önnur mál eru mikilvægari, þá ákváðum við að hælisleitendur væru stóri vandinn. Tímasetningin er ekki tilviljun. Rúmlega hundrað manneskjur, mest konur og börn — ofsóttasta fólk jarðar — braut innviðina okkar. Mikill er máttur þeirra. En þau brutu raunar enga innviði. Þau eru ekki einu sinni komin hingað. Þau komast líklega fæst.

Óþægilega umræðan um fangabúðirnar

Þetta fólk braut kannski ekki neina innviði, en þau brutu samt eitthvað innra með okkur, einhverja mannúð og samvisku. Núna sitjum við uppi með þungu umræðuna um hvernig við getum reist hér fangabúðir fyrir örvæntingafullt fólk án þess að kalla þær fangabúðir. Umræðan verður kannski eðlilega þung þegar hún er um það hvernig við léttum álagið á innviðina með því að útiloka brúna fólkið. Pössum okkur samt að æsa okkur ekki. Það er svo óþægilegt.

Það á eftir að koma fram hvaða skaða þessar þjóðernispópúlísku atkvæðaveiðar valda, en skaðinn er þegar að einhverju leyti skeður. Orðræðunni hefur verið breytt og ekki í jákvæða átt. Ég geri mér ekki grein fyrir hversu tengt þetta er allt saman, en samhliða þessu er talað fyrir stórauknum heimildum lögreglu til eftirlits með borgurum. Í löndunum í kringum okkur er fólk handtekið fyrir að láta í ljós skoðanir eða óæskilegan klæðaburð. Fasisminn er rétt handan við hornið og honum mætir fullkomið tómlæti og andvaraleysi.

Börnin sem byggja innviðina

Að þessu öllu sögðu leyfi ég mér að vera vongóður og bjartsýnn. Það er stór hópur fólks sem áttar sig á stóru myndinni og tjáir sig og getur fært skynsamleg rök fyrir máli sínu. Það er líka hvetjandi að sjá stóra hópa af börnum og unglingum sem hafa bæði burði til að kynna sér málin og gefur sér raunverulega tíma til að velta þeim fyrir sér. Þar er ljósglætan í myrkrinu. Því þetta var aldrei spretthlaup. Þetta verður alltaf langhlaup.

Færðu inn athugasemd