Púslið sem gengur aldrei upp

Í dag sat ég til svara í pallborðsumræðum um veruleikann sem mætir venjulegu launafólki að loknu fæðingarorlofi og fram yfir fyrstu misseri leikskólagöngu barns. Fundurinn var mjög þarfur að mínu mati og fyrsta tilraun sem ég hef orðið vitni að til að draga saman ólík sjónarmið þeirra fjölmörgu aðila sem málið varðar. Það eru auk annarra foreldrar, börn, leikskólastarfsfólk, sveitastjórnir og atvinnulíf. Raunar vildi ég einnig sjá ríki þurfa að svara fyrir málaflokkinn í auknum mæli. Þögnin þaðan er álíka ærandi og í umræðu um vanfjármögnun grunnskólanna. Ég ímynda mér að það sé þægilegt að láta sveitastjórnarstigið taka þennan slag og firra sig sem mestri ábyrgð á annars viðkvæmum málaflokki.

Ég fékk að taka sæti í pallborðsumræðunum sem fulltrúi launafólks og foreldra. Þannig reyndi ég að leggja eitthvað út af persónulegri reynslu minni undanfarið, og í samanburði við þau fyrri skipti sem ég hef verið í sambærilegri stöðu.

Á fundinum var ágætlega staðið að kynningu á nokkrum efnum sem varða málaflokkinn: tekjuskerðingu foreldra á tímabilinu – sem er mikil, umræðu um heimgreiðslur og samræmingu fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku. Betur er gert grein fyrir þessu annarsstaðar svo ég mun ekki rita ítarlegar um það hér. Vonandi verður þetta til þess að fleiri greiningar af svipuðum meiði upplýsi þessa viðkvæmu umræðu.

Eniga meniga

Þegar allt kemur til alls snýst þetta auðvitað aðallega um fjármögnun þótt umræðunni sé oft stýrt annað. Oft er henni stýrt í átt að hugmyndum um valfrelsi foreldra eða velferð barna. Svo virðist sem tekist hafi að reka fleyg milli leikskólastarfsfólks og foreldra í einhverjum skilningi. Með því meina ég að uppstillingin sem mér finnst ég verða áskynja (og kom sannarlega fram á fundinum) er þannig að annað hvort verði leikskólavandinn leystur með því skerða dvalartíma barna. Að öðrum kosti sé gengið á rétt og andlega heilsu leikskólastarfsfólks.

Þegar umræðan er viljandi skautuð á þennan hátt, er nokkuð viðbúið að hóparnir sem málið varða taki til varna. Til þess að verja sinn rétt, er tilhneyging hjá starfsfólki leikskólanna til að draga upp mjög dökka mynd af starfsaðstæðum sínum. Sú mynd er að öllum líkindum réttmæt og sönn, en umbreytist því miður oft í heildar niðurrifstal um leikskólann sem stofnun.

Foreldrar sem eru oft í mjög þröngri og viðkvæmri stöðu á þessu tímabili láta yfirleitt minna frá sér fara og ýmislegt yfir sig ganga. Það eru helst örvæntingarfull hróp um skort á úrræðum sem rata út. Samtakakraftur þessa hóps er takmarkaður og líklega óljós hugmynd um hentugar lausnir eða hvaða hugmyndafræði ætti að varða þá leið. Þegar fólk er svo loksins komið í var, hættir það að velta málaflokknum mikið fyrir sér, öðruvísi en yfir kaffibolla og ný grunlaus kynslóð tekur við kyndlinum.

Hver stjórnar þessu eiginlega?

Að endingu komum við alltaf að hlut ríkis og sveitarfélaga, en ábyrgð þeirra er mikil. Vanfjármögnun vegna erfiðrar fjárhagsstöðu er eitt og skortur á metnaðarfullri pólitískri sýn, þar sem það á við, er annað. Þetta eru raunverulegar áskoranir stjórnmálanna. Þess vegna er það leitt og býsna alvarlegt þegar þessir opinberu rekstraraðilar sneiða hjá viðfangsefninu og taka þannig þátt í að reka téðan fleyg milli leikskólastarfsfólks og foreldra, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað.

Þetta er til dæmis gert með því að auglýsa gjaldskrárbreytingar sem hafa það yfirlýsta markmið að stýra og breyta nýtingu þjónustunnar sem „aukið val“ og tala um að fólk „noti kerfin í samræmi við raunverulega þörf“. „Val“ og „þörf“ eru að sjálfsögðu fullkomlega matskenndir og breytilegir þættir eftir efni og aðstæðum fólks. Með því að stilla slíkri breytingu upp sem ákalli frá leikskólanum er þar komin fjarvistasönnun sem firrir rekstraraðilann ábyrgð á að bæta þjónustuna hinum megin frá.

Inn í þessa uppstillingu færir t.a.m. bæjarstjóri Kópavogs fram eftirfarandi í aðsendri grein á mbl.is í dag:

Þannig er óformlega látið skína í að eina leiðin til að laga kerfið sé að skerða dvalartíma barna og að leikskólastarfsfólk sjálft sjái enga aðra leið út úr vandanum. Ekki með því að auka fjármagn, ekki með því að bæta vinnuaðstæður, ekki með hækkun launa eða öðrum ráðum, sem ætla mætti að gætu bætt vinnuaðstæður innan leikskólanna. Eina leiðin samkvæmt þessu er að draga saman starfsemina.  

Bæjarstjórinn bætir svo raunar við í lokin í háðslegum tón:

eins og slíkt sé uppbyggilegt innlegg í umræðu af þessum toga. Raunar er það kannski talsvert áhyggjuefni að bæjarstjórinn sé svona boðinn og búinn að skoða réttindaskerðingu starfsfólks síns ef það væri í boði.

Foreldrar elska leikskóla

Ég held að flestir foreldrar séu yfirmáta þakklátir fyrir allt það uppbyggilega og góða starf sem fram fer í leikskólum víðast hvar og vilji leggja því lið. Ég held að flestir foreldrar vilji sjá leikskóla barnanna sinna dafna vel sem stofnanir og hag starfsfólksins sem sinnir börnunum sem bestan.

Mín persónulega reynsla af leikskólum borgarinnar er þannig að leikskólarnir hafa verið griðastaðir fyrir börnin mín. Þar hefur þeim liðið vel og þau fengið að njóta sín í góðri og fagmannlegri ummönnun.

Fæstir foreldrar tel ég að vilji standa gegn hagsmunum fólksins sem gætir barna þeirra, þegar uppstillingin er höfð á þann veg.

En foreldrar eru einstaklingar og foreldrar móta engar stefnur í tómarúmi um leikskóla. Þess vegna er frábært að verkalýðshreyfingin sýni þessum málaflokk núna áhuga frá þessum sjónarhól. Samhæfður þrýstingur frá verkalýðshreyfingunni er einmitt aflið sem þarf til að knýja fram þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á kerfinu, sem er auðvitað fyrst og fremst að kalla eftir betri fjármögnun. Þarna ættu leikskólastarfsmenn að eiga öflugasta samherjann í sinni baráttu fyrir betri kjörum og aðstæðum.

Þetta hlýtur að vera hægt – ég hef séð þetta annarsstaðar

Saman hljótum við að geta ýtt leikskólanum í rétta átt þannig að hann þjóni hagsmunum allra sem best, bæði barna, foreldra og þeirra sem starfa innan þeirra. Fyrirmyndir og dæmi sem virðast ganga bærilega upp eru nokkuð nærtæk á hinum norðurlöndunum og í raun frekar undarlegt að sú reynsla hafi ekki upplýst umræðuna hér á landi í meiri mæli.

Í stað þeirrar naumhyggju að kröppum kjörum sé einungis mætt með skerðingum, þá hljótum við að kalla eftir hugrakkari pólitískri sýn. Metnaður okkar hlýtur að vera að vilja góða, örugga þjónustu og glæsilegt umhverfi fyrir börnin og starfsfólkið sem gætir þeirra.

Færðu inn athugasemd