Um fyrirbærið „afleit störf“: Reiðilestur um vinnu

Árið 1930 spáði John Maynard Keynes að undir lok þeirrar aldar hefði tækninni fleygt nægilega mikið fram til þess að lönd á borð við Stóra-Bretland og Bandaríkin gætu búið við 15 stunda vinnuviku. Allt bendir til þess að hann hafi haft rétt fyrir sér. Sé horft til tækninnar sem er til staðar erum við vel fær um að koma þessu í kring. Samt sem áður hefur þetta ekki orðið raunin. Þess í stað hefur tæknilausnum verið beitt, ef eitthvað er, til þess að skapa leiðir til þess að láta okkur öll vinna meira. Til þess að ná því markmiði, hefur þurft að skapa störf sem eru í reynd tilgangslaus. Stórir hópar fólks, sérstaklega í Evrópu og Norður-Ameríku, verja allri starfsævi sinni í úrlausn verkefna sem þau trúa innst inni að þurfi ekki að vera innt af hendi. Félagslegi og andlegi skaðinn sem hlýst af þessum aðstæðum er umtalsverður. Um er að ræða ör þvert yfir sameiginlega sál okkar. Samt minnist svo gott sem enginn á þessa staðreynd.

Hvers vegna náði útópía Keynes – sem enn var beðið með eftirvæntingu á 7. áratugnum – aldrei fram að ganga? Útbreidda svarið við því er að hann hafi ekki séð fyrir þá stórfelldu aukningu sem varð í einkaneyslu. Þegar valið stóð á milli færri vinnustunda eða fleiri leikfanga og lystisemda, þá völdum við seinni kostinn. Þarna er dregin upp ágætis dæmisaga með siðferðisboðskap, en sé einungis staldrað við í eitt augnablik er ljóst að þetta stenst ekki nánari skoðun. Vissulega höfum við séð aragrúa nýrra og fjölbreyttra starfa verða til síðan á 3. áratug síðstu aldar, en mjög fá þeirra hafa nokkuð að gera með framleiðslu og dreifingu sushirétta, iPhone-a eða nettra strigaskóa.

Um hvað eru þessi nýju störf þá, eiginlega? Nýleg samanburðarskýrsla á atvinnumálum í Bandaríkjunum milli 1910 og 2000 gefur okkur mjög skýra mynd (og þess ber að gera að hún er nokkurn veginn eins í Bretlandi). Á síðastliðinni öld hefur fjöldi verkafólks starfandi sem húshjálp, í iðnaði og í landbúnaði dregist verulega saman. Á sama tíma hafa sérfræðingar, stjórnendur, skrifstofufólk, sölufólk og starfsfólk í þjónustu þrefaldast. Þessi hópur hefur farið úr því að vera 25% af öllu vinnandi fólki í það að vera 75%. Með öðrum orðum, störf í framleiðslu hafa verið sjálfvirknivædd í burtu líkt og spáð var fyrir um. (Jafnvel þótt starfsfólk í iðnaðarframleiðslu á heimsvísu sé talið með, og allt iðnverkafólk í Kína og Indlandi, þá er sá hópur töluvert minni en hann var sem hlutfall af íbúafjölda heimsins.)

En í stað þess að leyfa stórfellda fækkun vinnustunda til þess að veita íbúum heimsins frelsi til að vinna að eigin verkefnum, hugðarefnum og hugmyndum, þá höfum við fylgst með því sem talað er um sem þjónustuiðnaðinn – en er í reynd stjórnendageirinn bólgna út. Þannig hafa jafnvel heilir nýir geirar litið dagsins ljós eins og fjármálaþjónusta og símasala. Eins hefur átt sér stað fordæmalaus stækkun í geirum á borð við fyrirtækjalögfræði, meðal stjórnenda í mennta- og heilbrigðismálum, mannauðsstjórnun og almannatengslum. Þessi aukning endurspeglar svo ekki einu sinni allt það fólk sem starfar sem aðstoðarfólk, við tæknistuðning eða öryggismál tengdum þessum geirum, eða einu sinni alla þá aukageira (hundaþvottarfólk, pizzuheimsending allan sólarhringinn) sem eru einungis til vegna þess að allir aðrir verja svo miklum tíma vinnandi við það sem á undan er talið.

Þessi störf eru það sem ég vil stinga upp á að séu kölluð „afleit störf“.

Það er líkt og einhver þarna úti sé að finna upp tilgangslaus störf bara til þess eins að halda okkur öllum vinnandi. Og einmitt hér liggur ráðgátan. Undir kapítalisma, þá er þetta nákvæmlega það sem á ekki að gerast. Vissulega, í gömlu óskilvirku sósíalistaríkjunum eins og Sovétríkjunum, þar sem atvinna var álitin bæði réttindi og heilög skylda, tók kerfið til við að skapa eins mörg störf og þurfti til (þetta er ástæða þess að í sovéskum stórverslunum þurfti þrennt afgreiðslufólk að koma að sölu kjötstykkis). Þetta er auðvitað einmitt vandamál sem samkeppnismarkaður á að leysa. Það síðasta sem hagnaðardrifið fyrirtæki myndi gera er að verja fjármunum í starfsfólk sem það þarf ekki að hafa í vinnu. Að minnsta kosti samkvæmt kenningum hagfræðinnar. Samt sem áður, á einhvern hátt, gerist það.

Þrátt fyrir að fyrirtæki taki til við harkalegan niðurskurð, lenda uppsagnir og tímafækkanir yfirleitt alltaf á þeim hópi fólks sem er í reynd að búa til, hreyfa, laga og viðhalda hlutum. Fyrir tilstilli einhverrar undarlegar gullgerðarlistar sem enginn getur eiginlega útskýrt, virðist fjöldi möppudýra á föstum launum á endanum alltaf stækka. Fleira og fleira starfsfólk stendur sig að því, ekki ólíkt sovésku verkafólki í raun, að vinna 40 eða jafnvel 50 klukkustundir á pappír, en í reynd vinnandi 15 klukkustundir líkt og Keynes spáði fyrir um, þar sem vinnustundir umfram það fara í að skipuleggja eða sækja hópeflisnámskeið, eða uppfæra facebook-reikninginn sinn eða hlaða niður sjónvarpsþáttum.

Svarið hér er augljóslega ekki hagfræðilegs eðlis: Það er siðferðislegt og pólitískt. Ráðandi stéttir hafa áttað sig á því að hamingjusamur og iðinn lýður með lausan tíma á höndum sér er stórkostleg ógn (minnumst atburðarásarinnar þegar þessi staða byrjaði að gera vart við sig á 7. áratugnum). Þar að auki er það tilfinningin um að vinna sé dygð í sjálfu sér og að hver sá sem ekki vill sjálfviljugur undirgangast vinnutengdar þrekraunir um flestar sínar vökustundir eigi ekkert skilið, sem kemur sér einstaklega vel fyrir þær.

Eitt sinn, þegar ég velti fyrir mér, að því er virtist takmarkalausri aukningu verkefna sem féllu undir stjórnendur í breskum háskóladeildum, datt mér í hug ein útgáfa af helvíti. Helvíti er samansafn einstaklinga sem eyða megninu af vinnustundum sínum í að vinna að verkefnum sem þeim mislíkar og eru ekki sérstaklega færir í. Gefum okkur að þessir einstaklingar væru ráðnir þar sem þeir væru fyrirtaks húsgagnasmiðir en myndu svo uppgötva að það væri ætlast til þess að þeir eyddu stórum hluta tíma síns í að steikja fisk. Í raun væri svo engin raunveruleg þörf á að vinna þetta verk – allavega þyrfti einungis að steikja mjög fáa fiska. Samt sem áður yrðu allir svo gegnsýrðir af pirringi yfir tilhugsuninni um að sumt samstarfsfólk þeirra væri að eyða meiri tíma í húsgagnasmíð og ekki að taka sinn skerf af fisksteikingunni, að fljótlega væru endalausir staflar af illa steiktum fisk að hrannast upp um allt verkstæðið og það væri það eina sem nokkur maður fengist við. Mér þykir þetta í raun nokkuð nákvæm lýsing á hugmyndafræðilegri virkni efnahagsins sem við búum við.

Ég átta mig auðvitað á því að öllum svona staðhæfingum verður hróplega mótmælt um leið: „Í hvaða stöðu ert þú til þess að meta hvaða störf eru „nauðsynleg“? Hvað er í raun nauðsynlegt? Þú ert mannfræðiprófessor, hvaða „þörf“ er á því?“ (Og raunar myndu margir lesendur götublaðanna benda á tilvist míns starfs sem skilgreiningu á sóun úr sameiginlegum sjóðum.) Og í einhverjum skilningi er þetta augjóslega rétt. Það er ekki hægt að meta samfélagslegt virði á hlutlægan hátt.

Ég myndi ekki láta mér detta í hug að segja manneskju, sem væri sannfærð um að hún væri að bæta einhverju sem máli skiptir við heiminn, að hún væri í raun ekki að gera það. En hvað þá með það fólk sem er sjálft sannfært um að störfin þeirra skipti engu máli? Fyrir ekki svo löngu síðan endurvakti ég kynnin við skólafélaga sem ég hafði ekki séð síðan ég var 12 ára. Ég fylltist undrun þegar ég uppgötvaði að í millitíðinni hafði hann fyrst gerst ljóðskáld og seinna aðalsöngvarinn í indie rokkhljómsveit. Ég hafði heyrt sum lögin hans í útvarpinu án þess að gera mér grein fyrir að söngvarinn væri í raun einhver sem ég þekkti. Hann var augljóslega frábær, með góðar hugmyndir og það er óumdeilt að verk hans höfðu fært birtu og gleði í líf fólks um allan heim. Þrátt fyrir það hafði hann misst plötusamninginn eftir nokkrar óvinsælar plötur og stóð eftir skuldugur með nýfædda dóttur. Því valdi hann sjálfkrafa, eins og hann lýsir því, „leiðina sem svo margir velja sem tapað hafa áttum: lögfræði.“ Nú er hann fyrirtækjalögfræðingur og starfar fyrir áberandi lögmannsstofu í New York. Hann tók það fram að fyrra bragði að starfið hans væri algerlega tilgangslaust, bætti engu við heiminn og ætti ekki að vera til að hans eigin mati.

Hér vakna margar spurningar. Sú fyrsta: „Hvað segir það um samfélag okkar að það virðist búa til mjög takmarkaða eftirspurn eftir hæfileikaríkum ljóðskáldum og tónlistarmönnum, en nánast óseðjandi eftirspurn eftir sérfræðingum í fyrirtækjalögfræði? (Svar: Ef 1% fólks stjórnar megninu af öllu lausafé, þá endurspeglar það sem við köllum „markaðurinn“ það sem þessu fólki þykir gagnlegt eða mikilvægt, ekki neinum öðrum.) Ennfremur, þá sýnir þetta fram á að flest fólk í þessum störfum er þegar allt kemur til alls meðvitað um þetta. Í reynd, þá er ég ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann hitt fyrirtækjalögfræðing sem fannst starfið sitt ekki „afleitt“. Það sama á við um nokkurn veginn alla þá nýju geira sem minnst var á að ofan. Það er heil stétt sérfræðimenntaðra launþega sem forðast helst að vilja ræða á nokkurn hátt það sem þau fást við ef þú hittir þau í veislu og viðurkennir að þú fæst við eitthvað sem gæti verið álitið áhugavert (t.d. mannfræði). Eftir nokkra drykki eiga þau til að segja frá því í löngu máli hversu tilgangslaust og vitlaust starfið þeirra er í raun.

Hér er um að ræða djúpstætt sálrænt ofbeldi. Hvernig er einu sinni hægt að tala um að vera stoltur af dagsverki sínu þegar manni finnst leynilega innst inni að starfið manns ætti ekki að vera til? Hvernig skapar þetta ekki djúpstæða reiði og gremju? Það er eitt af furðuverkum samfélags okkar að þeir sem stjórna því hafa fundið leið, líkt og í tilviki fisk-steikjendanna, til þess að allri reiðinni er sérstaklega beint að þeim sem vinna gefandi störf. Í okkar samfélagi virðist það til dæmis almenn regla að því meira sem starfið manns gagnast öðru fólki, því minni líkur eru á því að það fáist greitt fyrir vinnuna. Hér er líka erfitt að finna hlutlægan mælikvarða, en það er auðvelt að fá einhverja tilfinningu með því að spyrja sig: Hvað myndi gerast ef öll þessi stétt fólks myndi einfaldlega hverfa? Sama hvað má annars segja um hjúkrunarfræðinga, sorphirðufólk eða vélvirkja, þá er það augljóst að ef þessir hópar myndu gufa upp yrðu niðurstöðurnar skelfilegar og myndu birtast okkur um leið. Heimur án kennara eða hafnarverkamanna myndi fljótlega lenda í vandræðum. Jafnvel heimur án vísindaskáldsagnahöfunda eða ska-tónlistarmanna væri augljóslega aðeins lélegri. Það er ekki almennilega ljóst hversu mikið mannkynið myndi þjást ef framkvæmdastjórar einkahlutafélaga, talsmenn hagsmunafélaga, almannatenglar, sérfræðingar í áhættustýringu, símasölufólk, stefnuvottar eða lagaráðgjafar myndu hverfa á sama hátt. (Sumir telja að heimurinn gæti batnað umtalsvert.) En burtséð frá örfáum dæmum sem mikið er haldið á lofti (eins og læknum), heldur þessi regla ágætlega vatni.

Það sem er jafnvel sjúklegra er að það virðist vera almennt samþykki fyrir því að svona eigi hlutirnir að vera. Þetta er einn af leynilegum styrkleikum hægri-pópúlisma. Þetta má greina þegar götublöðin ýfa upp gremju í garð starfsfólks neðanjarðarlestanna fyrir að lama London á meðan tekist er á um samninga. Sú staðreynd að starfsfólk neðanjarðarlestanna geti lamað London sýnir að vinna þeirra er raunverulega nauðsynleg, en það virðist vera nákvæmlega það sem fer í taugarnar á fólki. Þetta er jafnvel skýrara í Bandaríkjunum þar sem Repúblíkönum hefur gengið sérstaklega vel að kynda undir gremju í garð kennara eða starfsfólks í bílaiðnaðinum (en alls ekki í garð skólastjórnenda eða stjórnenda í bílaiðnaðinum sem valda í raun vandræðunum) fyrir það sem einhverjum telst til að séu há laun og fríðindi. Það er líkt og verið sé að segja við þau: „En þú færð að kenna börnum! Eða smíða bíla! Þið fáið að hafa raunveruleg störf! Og þar að auki vogið þið ykkur að fara fram á millistéttar-lífeyri og heilbrigðistryggingu?“

Ef einhver hefði hannað vinnukerfi sem ætti eftir bestu getu að tryggja fjármagni áframhaldandi völd í samfélaginu, þá er erfitt að átta sig á því hvernig hefði verið hægt að standa betur að málum. Verkafólk sem raunverulega framleiðir er linnulaust keyrt áfram og misnotað. Það fólk sem eftir stendur skiptist í tvo hópa. Annars vegar atvinnulausa – hóp sem fólk úthrópar og hefur óbeit á – og hins vegar stærri hóp fólks sem er í reynd greitt fyrir að gera ekkert, í stöðum sem eru hannaðar til að fá þau til að tengja við sjónarmið og hugmyndafræði ráðandi stéttanna (forstöðufólk, stjórnendur o.s.frv.) – og sérstaklega þá í fjármálageiranum – en á sama tíma næra bullandi gremju í garð allra þeirra sem vinna störf sem hafa óneitanlegt félagslegt gildi. Augljóslega var þetta kerfi aldrei meðvitað hannað af neinum. Þetta kerfi spratt fram á næstum heilli öld af tilraunastarfsemi. En þetta er það eina sem útskýrir hvers vegna við erum ekki öll að vinna 3-4 stunda vinnudag þrátt fyrir alla okkar tæknilegu getu.

Eftir: David Graber

Greinin birtist fyrst í ágúst 2013 í tímaritinu STRIKE!

Þýðing: Arnaldur Grétarsson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s