Nú nýlega var brottvísun fatlaðs barns á flótta stöðvuð á síðustu stundu þegar ráðherrar VG fóru fram á að mál barnsins væri tekið upp á ríkisstjórnarfundi, enda um nokkuð sérstakt mál að ræða. Í kjölfarið hefur nokkuð borið á því sjónarmiði að „ein lög séu í landinu“ og að þeim beri að fylgja nákvæmlega í framkvæmd. Þannig er talað um að fordæmið sem skapist með þessari atburðarás, sé skaðlegt fyrir samfélagið í heild og grafi undan ætlaðri reglufestu í samfélaginu almennt. Sumir ganga svo langt að segja að frávik frá framvæmd laganna séu einkenni alæðisríkja.
Áhyggjurnar að baki þessu sjónarmiði eru skiljanlegar að einhverju leyti, en bera einnig vott um mjög einfeldningslega sýn á samfélagið. Að sjálfsögðu eru reglufesta, fyrirsjáanleiki og einsleitni í framkvæmd æskileg af hálfu ríkisins. Það er þó með þeim fyrirvara að slíkt er bæði óframkvæmanlegt í reynd og óraunverulegt nema í takmörkuðum hugsanaæfingum. Fæst kærum við okkur líklega um að búa við einhverskonar móral absólútisma. Með öðrum orðum eru það í vissum skilningi hugarórar að til sé samfélag sem einu sinni sækist eftir fullkominni framkvæmd laganna. Oft eru það fasísk eða trúarleg ríki sem ná bærilegu flugi á slíkri vegferð, en það er kannski ekki eitthvað sem okkur hugnast yfirleitt.
Við getum litið í kringum okkur og séð dæmin allstaðar. Allir þekkja sögur og dæmi um misjafna framkvæmd laganna, jafnvel á eigin skinni. Þannig fá sumir sekt, aðrir ekki. Sumir missa vinnuna fyrir rasísk ummæli en aðrir ekki. Landasalinn er tekinn úr umferð en léttvínssalinn má selja á netinu. Með þessu erum við bara að tala um þetta almenna regluverk sem snertir almenning í landinu. Umræðan um hvert lög og regla ná er ekki einu sinni hafin.
Það er nefnilega svo, að um leið og málin fá á sig örlítið flóknari blæbrigði, þá sérsmíðum við lög og reglur í kringum þau. Á einhverjum flóknari stigum gilda svo bara mjög takmörkuð lög og þeir sem þekkja til á þeim sviðum framkvæma í reynd bara það sem þeim sýnist. Almenna reglan er samt sú að reglurnar, eftirlit og framfylgd með þeim eru meira íþyngjandi og áþreifanlegri, eftir því sem þú ert venjulegri og fátækari. Þyngstar eru reglurnar og framfylgd þeirra fyrir mállaust fólk á flótta.
Það eru ekki alltaf til reglur sem ná utan um óvenjulegt, flókið og ríkt fólk. Ef það eru til yfirgripsmiklar reglur á því sviði, þá er gjarnan lítið eftirlit og yfirleitt nánast engin framkvæmd. Þannig geta ýmsir ríkir forsætisráðherrar skotið peningunum sínum í skattaskjól og lenda í engum eftirmálum, á meðan fátæka, fatlaða barnið verður að sæta blindri framkvæmd laganna í landinu.
Formalistarnir hafa auðvitað rétt fyrir sér um það að við viljum almennt að eitt gangi yfir alla (eða sem flesta) og best væri ef flestir gengu í takt. En formalistarnir vita það svo líka að lagahyggjan gagnast ekki síður til að skemma lýðræðisleg meðul sem þeim persónulega mislíkar, hvort sem það er framkvæmd kosninga eða breytingar á úreltum lagaákvæðum sem þeir voru að nýta sér í hagnaðarskyni.
Það sem er kannski áhugaverðast í þessu samhengi, við mál flóttabarnsins frá Palestínu, er að nú hefur alþjóðasamfélagið horft upp á alþjóðalög þverbrotin nánast daglega án eftirmála í á að verða heilt ár (ef við undanskiljum 75 ára ólöglega hersetu). Það sætir engri gagnrýni af hálfu stjórnvalda og fáir sem setja fram heimspekilegar yfirlýsingar um afdrif þess á fylgispekt við lög almennt.
Ef sagan kennir okkur eitthvað, þá er það farsælast og gæfuríkast að láta mannúð og kærleika njóta vafans þar sem álitamálin flækja framkvæmdina.
VIÐBÓT: Með þessum hugleiðingum er ég alls ekki að mælast til þess að lögum sé almennt framfylgt á handahófskenndan hátt. Þvert á móti. Ég bendi bara á þá staðreynd að við fylgjum lögum almennt frekar handahófskennt og að það er skrítið, barnalegt og líklega pólitískt að velja sér þessa tilteknu, sérkennilegu brottvísun sem einhvern hornstein reglufestu í landinu.


Færðu inn athugasemd